19.7.04

Meira sund

Eftir daginn í SanFran áttum við allar að taka sitthvora lestina til baka. Una var því miður svo óheppin að hún átti erfitt með að komast heim til sín því seinasta lestin sem fór beint til Fremont var löngu farin. Ákveðið var að Una færi bara með mér heim og gisti, sem gat ekki hentað mér betur. Málið var nefninlega að við þurftum að bíða í klukkutíma á lestarstöðinni og svo tók ferðin í lestinni annan klukkutíma. Frekar sorglegt því lestin mín fer á klukkutíma fresti á laugardögum nema 9 lestinni er sleppt og við komum ákúrat klukkan 9... Ekki gott. Ég var þannig mjög fegin að þurfa ekki að bíða ein í klukkutíma á lestarstöðinni.
Ragga var hinsvega mun óheppnari. Hún fór í vitlausa lest og endaði í Pleasanton sem er lengra frá SanFran heldur en frá SanFran heim til hennar. Hennar ferð tók ca. 2tíma þar sem hún fór til Pleasanton, tók aðra lest næstum alla leið til baka og aðra heim í Walnut creek. Hún hefði átt að vera ca. hálftíma á leiðinni.
Í raun endaði þetta þannig að við vorum allar þrjár á endastöðinni okkar á sama tíma.
 
Það að Una gisti hjá okkur var bara ennþá betri afsökun fyrir okkur Finn, Hrefnu og Önnu að koma í sundlaugina til þeirra Guðrúnar og Snorra. Þar sá ég Önnu í fyrsta sinn vera hrædda við vatnið, því um leið og við fórum ofan í fór hún að hágráta. Hún grét alveg lengi á eftir og það var mjög erfitt að róa hana. Líklega var þetta mest sjokk að fara svona úr hitanum í kalt vatn (virkaði kalt fyrst þegar maður kom úr steikjandi sólinni). Hún samt var rosalega óörugg mestan hluta meðan hún var ofaní. Allavega mun óöruggari en hún hafði verið í seinustu skiptin.
Við Finnur borðuðum þarna kvöldmat og spiluðum en Hrefna og AnnaSólrún stungu okkur af í stelpukvöld. Guðrún og Una voru svo svakalega góðar við okkur að þær skutluðu okkur heim eftir spil.
 
Af Önnu er það helst að frétta að hún fékk fyrstu tönnina núna á laugardeginum. Ég hef reyndar ekki séð hana ennþá því hún stingur alltaf tungunni út úr sér þegar ég er að reyna að kíkja. (Við skulum vona að hún sé ekki að ulla á mig;))


 


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim