19.9.09

Nýtt hjól!!

Ég er búin að vera kreisí spennt í allan dag :) Ég hafði samband við konu sem var að selja hjólið sitt. Hún hins vegar býr nokkuð langt frá en það vildi svo vel til að Sandra og Krissi voru að fara til Randers sem er bara ca. 6km. frá þeim stað sem hjólið mitt var á. Þau voru svo góða að bjóðast til þess að sækja það fyrir mig. Ég er búin að vera í sms sendingum við konuna síðan í gærkvöldi sem er búin að vera alveg ótrúlega skemmtileg og hress. Hún meira að segja sendi mér sms og lét mig vita að Sandra og Krissi væri nýfarin með hjólið :) Sé mest eftir því að hafa ekki fengið að hitta hana sjálf til að sjá hvort hún væri jafn hress og hún virtist!
Hjólið mitt er eiginlega alveg eins og ég sýndi á mynd fyrir neðan (af öðru hjóli sem ég fékk ekki). Ég er svo ánægð með það að ég er viss um að ég tími ekki að selja það aftur eftir veturinn ;) Held ég hafi aldrei átt svona alvöru stelpuhjól. Ég fór meira að segja í Tiger líka að kaupa mér hjálm svo ég er "all set".
Í kvöld hjóluðum við Herdís og Sara (sem er au-pair hér) í bíó. Þetta var í fyrsta skipti sem við allar hjóluðum í bíó. Ótrúlegt samt hvað fólk er mikið á hjólum hér og hvað er alveg ótrúlega troðið á öllum hjólastæðum. Danir eru líka alveg undrandi á því að það sé ekki hjólað mikið á milli staða á Íslandi. "Why not?"

Ég hef annars ákveðið að kíkja heim til Íslands í október. Þá er haustfrí og gott að geta nýtt tímann til að fara aðeins heim. Afi minn lést líka síðastliðinn þriðjudag en jarðarförin verður ekki fyrr en ég kem heim, sem mér finnst rosalega gott. Finnur bróðir kemur líka og Anna Sólrún svo það verður fjörugt í húsinu :)

10.9.09

Fögur er sveitin ;)

Eftir skóla í dag var ég búin að ákveða að kíkja í IKEA að kaupa eitthvað smávægilegt til að klára vegginn sem ég er að byggja (#sungið# Steinunn byggir, dúdúrú #). Herdís var svo skemmtileg að veita mér félagsskap á leiðinni og við hoppuðum tvær inn í strætó nr. 3. Hann fer í IKEA. Sennilega eina sem ég veit almennilega um strætóana hér ;)
Þetta varð þó aðeins ævintýralegri ferð en við áttum von á! Þegar við erum búnar að keyra í 10-15 mín sé ég IKEA á hægri hönd (sem er óvanalegt). Ég fór að velta fyrir mér að strætó væri nú að fara óvenjulega leið miðað við seinast þegar ég tók strætó þangað, en hann hljóti bara að taka einhvern hring. ...svo keyrir strætó bara frá IKEA og tekur engan hring. Við Herdís lítum hvor á aðra... Ákveðum að sitja samt um kyrrt, strætó hlýtur að snúa við á endanum. Það var ekkert voðalega gáfulegt því hann keyrði bara lengra og lengra. Á endanum fara allir út og strætóbílstjórinn segir að hér verðum við að fara líka. Jæja, við höfðum þá fengið að sjá aðeins sveitina á Jótlandi... svona þannig. Við vorum komnar til Trige, 12 km frá Århus og 40 mín bið í næsta strætó. Við nenntum ekki að bíða þannig að við löbbuðum í IKEA ca. 6km og vorum næstum komnar þegar strætó keyrði framhjá. Gengum á hjólaveginum því það var enginn gangstétt. Svakalegur dugnaður. Vöktum þó mikla athygli ökumanna sem við mættum.
Ég komst að því að danir taka bara framúr þó það sé bíll á koma á móti. Vegirnir eru það breiðir að þeir gera komast alveg þrír fyrir hlið við hlið svo þeir nýta sér það bara. Sá þetta alveg nokkrum sinnum á leiðinni, einn að taka framúr og mætir um leið bíl að koma á móti. Mér var ekki alveg sama. Sennilega ekkert svakalega gáfulegt að rölta svona meðfram sveitavegunum.
Eftir IKEA innkaupin og skyldu-IKEA-pylsuna þurftum við að bíða í 40 mín eftir strætó og vorum ekki komnar heim fyrr en hálf 9. Þess vegna er ég ennþá vakandi, er ekki alveg að átta mig á að klukkan er orðin hálf 2 hjá mér. Kannski ég ætti að koma mér í rúmið.... ætla aðeins að pæla í því ;)

7.9.09

"Your money is no good here"

Úff, held að veðurguðir Árósa geti ekki ákveðið sig hvort það sé sumar eða haust. Dagurinn í dag var ótrúlega heitur og rakur.
Ég ætlaði loksins að láta verða að því að opna bankareikning. Eftir smá rannsóknarvinnu höfum við komist að því að sennilega er Vestjysk bank líklegast til að gefa okkur Dankort fljótlega svo ég rölti til þeirra í morgun. Neinei, ég gat ekki opnað bankareikning í dag því ég var ekki með bréf frá þjóðskrá Danmerkur með réttu heimilisfangi. Frábært! Ég hafði fengið kennitöluna mína meðan við bjuggum enn á gamla staðnum og er ekki búin að fá neitt nýtt í hendurnar með réttu heimilisfangi. Ég var frekar pirruð að hafa farið fýluferð útaf einhverju svona. Ég veit að heimilisfangið er orðið rétt í þjóðskrá því ég sé það á skráningunni í skólanum en nei, ég verð að vera með eitthvað asnalegt pappírssnifsi. Skilríki með mynd og staðfesting á kennitölu er ekki nóg. ...ein vel pirruð ;) Held þeir vilji ekki peningana mína.

Annars fann ég hjól eins og mig langar í, ódýrt í Skanderborg sem er bara í korters fjarlægð í lest. Ég krossa fingur að það seljist ekki áður en ég heyri í seljandanum. Það er samt frekar ólíklegt miðað við hvað hann ætlar að selja það ódýrt en það má alltaf vona ;) Reyndar ljósbleikt en ég held ég ætti að lifa það af ;)

Billede

B.t.w. ég skildi meira í tíma í dag :D Enda var annar kennari sem stoppaði í byrjun fyrirlestrar og spurði hvort hún ætti ekki að tala hægt. Hún hefði heyrt að það væru svo margir Íslendingar í hópnum (hún minntist ekkert á alla norðmennina sem eru 2-3 sinnum fleiri ;) ). Ég meira að segja hló að allavega tveimur bröndurum hjá henni. Haha, geri aðrir betur.
Heyrði það í dag að upphaf vikunnar (mán-þri) sé yfirleitt erfiðastir að skilja svo þegar líði á vikuna verði þetta auðveldara. Allavega þegar maður talar bara íslensku um helgar. Vonum að það sé rétt ;)

Við Sandra erum frekar óheppnar. Í fagi sem kallast Forskningsmetoden erum við í hóp 3. Þetta er víst í fyrsta sinn sem búnir hafa verið til 3 hópar í klíníska hluta þessa fags. Það er svosem bara fínt fyrir utan að við erum eini hópurinn sem þarf að mæta í miðju haustfríi í skólann. Það er skyldumæting í 80% af tímunum en það eru bara 5 tímar svo við verðum að mæta í 4. Ég sem hefði kannski getað kíkt í heimsókn heim í 12 daga. Það hefði verið næs. Spurning hvort maður láti reyna á 6 daga heimsókn... Hmmm væri gaman ;)

4.9.09

Rok og rigning

Ég var alveg heldur fljót á mér að segja að ég skildi rosalega mikið... Kannski ekki alveg svo mikið ;) Við fórum í skólann í gær. Fyrst um morguninn var kynning á náminu og skólanum sem gekk bara fínt. Fyrsti tíminn var svo eftir hádegið. Ég skildi að sjálfsögðu voðalega lítið... næstum ekki neitt! Mér leið þó aðeins betur þegar ég frétti eftir tímann að danirnir áttu líka erfitt með að skilja hann. Hann talaði víst svo óskýrt. Það var þó hægt að lesa glærurnar hans og mér sýnist að þessi tími eigi eftir að vera mjög áhugaverður... svona um leið og ég fer að skilja karlinn aðeins betur :)

Dagurinn í dag var fyrsti haustlegi dagurinn með roki og rigningu. Ég er ansi hrædd um að ég hafi eyðilagt regnhlífina mína :S Það eru engir tímar föstudögum svo við sváfum bara frameftir, í fyrsta sinn í langan tíma! Það var ekkert smá næs. Við neyddumst samt til að fara í bæinn og leita okkur að neti til að panta okkur router. Við höfum nefninlega farið inn á opið net sem datt niður í gærkvöldi. Pöntunin gekk að vísu ekkert sérstaklega vel því danirnir eru ansi gjarnir á að vilja fá allt sem maður pantar skráð á dönsk símanúmer en við höfum ekki fengið það enn, því til þess þurftum við kennitölu sem við Herdís erum nýkomnar með og fáum símanúmerin eftir helgi. Þá var bara næst á dagskrá að finna Telenor búð og spjalla bara face-to-face við einhvern afgreiðslumanninn. Hann pantaði fyrir okkur netið og þrátt fyrir að hann segði að við yrðum að vera með kennitölu til að fá það þá tók hann aldrei niður kennitöluna mína... skrítið. Versta er að við þurfum að bíða í ca. 14 daga eftir neti! 14 daga!!!!! Sem betur fer eru danir eru ekkert smá hjálplegir því parið við hliðina á okkur bjó til gesta-aðgang fyrir okkur á netið þeirra meðan við bíðum eftir okkar neti. Þau meira að segja harðneituðu að taka við greiðslu frá okkur. Þetta sama fólk lánaði okkur líka borvél svo við gætum borað fyrir gardínum.

Veggirnir hér eru svo enn önnur saga! Þetta eru án efa hörðustu veggir sem ég hef kynnst. Við þurftum að bora 8 göt fyrir gardínum í íbúðinni. Það tók okkur 2 1/2 tíma að borga 2 göt og náðum reyndar aldrei að komast nógu langt með seinna gatið. Ég sver að borinn stóð í stað á seinna gatinu og við enduðum á að gefast upp. Lausnina fundum við svo í dag! Snilldarlausn! Sturtuhengi!! Í dag eru það sturtuhengi sem halda uppi gardínunum ;) Algjör snilld! Tek það fram að veggirnir voru meira að segja svo harðir að stálnaglarnir bognuðu þegar við reyndum að negla einn í vegginn. Held að við séum bara búnar að taka þá ákvörðun að ekkert verði hengt á vegginn! Ekki nema að við finnum fleiri sturtuhengi! ...djók ;)

Seinasta mál á dagskrá í bili er svo að stúka herbergið mitt af. Eftir langa, langa leit að einföldu skilrúmi sem bara virðist ekki fást lengur hef ég ákveðið að smíða mér skilrúm. Það er alls ekki svo dýrt og þá get ég líka bara ráðið hvað það er hátt og breytt :) ...held það sé nokkuð til í máltækinu að neyðin kenni naktri konu að spinna! ...og smíða ;)

2.9.09

Århus- 10 dagar liðnir

Loksins! Loksins internet sem ég get notað... þegar ég vil!! :D
Við Einar komum fyrir 10 dögum og mættum í íbúðina sem okkur hafði verið reddað á seinustu stundu. Við fengum að vera þar í ágúst ef við myndum þrífa og svo ætlaði leigusalinn að gera við okkur samning. Fyrstu dagana vorum við bara með helminginn af því sem okkur bauðst og ekki heitt vatn í byrjun, en það var lagað. Ekki voru heldur lyklar til að íbúðinni sem ég var í en lyklar voru að herberginu við hliðina á. Þegar ég fór í þvottavélaleiðangur í grútskítuga kjallarann með öllum rottugildrunum (það höfðu verið rottur en voru ekki lengur... held ég) komst ég að því að sápuhólfið í þvottavélinni niðri var svart af skít! Ekki séns að ég myndi þvo fötin mín í svartri sápu svo ég gerði heiðarlega tilraun til að þrífa sápuhólfið. Það var enn brúnt þegar ég var búin að nudda og nudda. Það var rakalykt í íbúðinni sem maður reyndar vandist og var hættur að taka eftir þegar Sandra kom nokkrum dögum seinna. Hún fann hana að sjálfsögðu eins og skot. Þegar neðri hæðin losnaði fengum við að sjá öll herbergin og í einu voru rakaskemmdir í vegg og þar höfðu verið nokkrir köngulóavefir í hverju horni (sáum það rétt áður en fyrri leigjendur þrifu almennilega). Þá vorum við komnar í smá vandræði því við vorum ekki sáttar við þetta og vildum finna eitthvað annað.
Við vorum alveg fáránlega heppnar, fundum íbúð sem við gátum flutt inní strax í gær og fórum strax í að fá bíl og flytja allt draslið yfir! Þetta tókst á mettíma! 3 og 1/2 tími bara við stelpurnar því við erum víst orðnar karlmannslausar :'( Enda er ég að dreeeeepast í öxlunum og bakinu í dag. Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi var eina sem eftir var af gömlu íbúðinni rakalyktin af sænginni minni... Held ég verði að þvo allt!
Skólinn byrjar víst ekki fyrr en á morgun hjá okkur Söndru en Herdís byrjar núna á eftir. Við eigum örugglega voða lítið eftir að skilja en það hlýtur að koma bráðlega. Ég er allavega farin að skilja flest sem er sagt við mig á dönsku og skildi alveg 90% af því sem sagt var þegar við vorum að skoða íbúðina, restina þýddi Sandra. Ég verð að setja myndir inn af íbúðinni við tækifæri... og ég lofa að næsta blogg verður ekki svona langt, er að reyna að segja bara það helsta ;) Ég er að vinna upp internetleysi síðustu 10 daga ;)