4.9.09

Rok og rigning

Ég var alveg heldur fljót á mér að segja að ég skildi rosalega mikið... Kannski ekki alveg svo mikið ;) Við fórum í skólann í gær. Fyrst um morguninn var kynning á náminu og skólanum sem gekk bara fínt. Fyrsti tíminn var svo eftir hádegið. Ég skildi að sjálfsögðu voðalega lítið... næstum ekki neitt! Mér leið þó aðeins betur þegar ég frétti eftir tímann að danirnir áttu líka erfitt með að skilja hann. Hann talaði víst svo óskýrt. Það var þó hægt að lesa glærurnar hans og mér sýnist að þessi tími eigi eftir að vera mjög áhugaverður... svona um leið og ég fer að skilja karlinn aðeins betur :)

Dagurinn í dag var fyrsti haustlegi dagurinn með roki og rigningu. Ég er ansi hrædd um að ég hafi eyðilagt regnhlífina mína :S Það eru engir tímar föstudögum svo við sváfum bara frameftir, í fyrsta sinn í langan tíma! Það var ekkert smá næs. Við neyddumst samt til að fara í bæinn og leita okkur að neti til að panta okkur router. Við höfum nefninlega farið inn á opið net sem datt niður í gærkvöldi. Pöntunin gekk að vísu ekkert sérstaklega vel því danirnir eru ansi gjarnir á að vilja fá allt sem maður pantar skráð á dönsk símanúmer en við höfum ekki fengið það enn, því til þess þurftum við kennitölu sem við Herdís erum nýkomnar með og fáum símanúmerin eftir helgi. Þá var bara næst á dagskrá að finna Telenor búð og spjalla bara face-to-face við einhvern afgreiðslumanninn. Hann pantaði fyrir okkur netið og þrátt fyrir að hann segði að við yrðum að vera með kennitölu til að fá það þá tók hann aldrei niður kennitöluna mína... skrítið. Versta er að við þurfum að bíða í ca. 14 daga eftir neti! 14 daga!!!!! Sem betur fer eru danir eru ekkert smá hjálplegir því parið við hliðina á okkur bjó til gesta-aðgang fyrir okkur á netið þeirra meðan við bíðum eftir okkar neti. Þau meira að segja harðneituðu að taka við greiðslu frá okkur. Þetta sama fólk lánaði okkur líka borvél svo við gætum borað fyrir gardínum.

Veggirnir hér eru svo enn önnur saga! Þetta eru án efa hörðustu veggir sem ég hef kynnst. Við þurftum að bora 8 göt fyrir gardínum í íbúðinni. Það tók okkur 2 1/2 tíma að borga 2 göt og náðum reyndar aldrei að komast nógu langt með seinna gatið. Ég sver að borinn stóð í stað á seinna gatinu og við enduðum á að gefast upp. Lausnina fundum við svo í dag! Snilldarlausn! Sturtuhengi!! Í dag eru það sturtuhengi sem halda uppi gardínunum ;) Algjör snilld! Tek það fram að veggirnir voru meira að segja svo harðir að stálnaglarnir bognuðu þegar við reyndum að negla einn í vegginn. Held að við séum bara búnar að taka þá ákvörðun að ekkert verði hengt á vegginn! Ekki nema að við finnum fleiri sturtuhengi! ...djók ;)

Seinasta mál á dagskrá í bili er svo að stúka herbergið mitt af. Eftir langa, langa leit að einföldu skilrúmi sem bara virðist ekki fást lengur hef ég ákveðið að smíða mér skilrúm. Það er alls ekki svo dýrt og þá get ég líka bara ráðið hvað það er hátt og breytt :) ...held það sé nokkuð til í máltækinu að neyðin kenni naktri konu að spinna! ...og smíða ;)

1 Ummæli:

Þann 11:50 e.h. , Blogger Unknown sagði...

Mér heyrist að þú komir heim með mastersgráðu í sálfræði og sem smiður :P og lýst bara nokkuð vel á :)

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim