31.7.04

Við afmæli undirbúa vera.

Nú er að taka við ofurspíttaður afmælisundirbúningur. Við eigum eftir að gera helling!! Hvernig við förum að því veit ég ekki en sem betur fer er búið að seinka afmælinu til kl.5. Finnur er allur bæklaður með læsta öxl. Ég sótti hann einmitt snemma í vinnuna í gær því hann var orðinn svo ónýtur í öxlunum. Þetta verður afmæli með krambúleruðu afmælisbarni.

Helstu fréttir dagsins eru samt þær að Ragnheiður "litla" frænka mín er 14 ára í dag.... Ekkert svo lítil lengur, og hefur líklega ekki verið í svolítinn tíma. Ég meina hún er að ná mér í hæð!! Ohhh, ég verð að stækka... Hmmm eða eignast tímastoppara... Hvort ætli sé raunhæfara?....
Allavega, til hamingju með afmælið!!!!

María heimtaði Jón engar bækur lesið hafði

Víííí!!! Ég keyrði út í vinnu til Finns í dag!! Ég er búin að vera frekar hrædd við að keyra í útlöndum og hef ekkert ýtt á að fá að keyra. Þetta gekk bara vel, umferðin er miklu rólegri hér en heima. Þrátt fyrir að ég hafi verið á hraðbrautinni í umferðarteppu. Enginn pirraður og allir að gefa öðrum séns... Nokkuð sem maður sér ekki heim... eða varla.

Þegar við Finnur komum heim var hérna stelpa komin sem er að læra málvísindi við MIT háskóla. Hún kom með könnun með sér sem tilraunadýrin eru annað hvort með íslensku eða sænsku að móðurmáli.
Könnunin er þannig að maður les setningu á íslensku og segir hvort hún gengur upp eða ekki. Mér hefði aldrei getað dottið í hug að það væri svona erfitt. Þetta eru allt svipaðar setningar með mismunandi orðaröð. Margar af setningunum geta alveg gengið upp en við myndum ekki nota þær eða jafnvel að þær gengju bara upp við sérstakar aðstæður.
Að lesa sömu orðin í mismunandi setningum 20 sinnum gerði mig ekkert smá ruglaða! Orðin "engum" og "bókum" missti algjörlega merkingu sína þannig að ég var farin að velta fyrir mér hvort þetta ætti í alvöru að vera skrifað svona. Það er mjög sérstakt að reyna að skilja samhengi á orðum sem virðast algjörlega hafa misst merkingu sína.

30.7.04

????

Mmmmm, við erum að bíða eftir að maturinn eldist (ekki að hann verði eldri;)). Grillað nautakjöt, maísstönglar og salat (skorið af mér), mmmm. Ég er sko ógislega svöng.

Við Anna fórum í heimsókn nr.2 í leikskólann í dag. Þar hittum við nýja fóstru sem var alveg jafn frábær og hinar. Þær eru allar frekar hissa á að maður tali enski og spurja allar hvernig í ósköpunum ég hafi eiginlega lært þetta. Þeim finnst líka ekkert smá flott að á Íslandi skuli vera skylda að læra að minnsta kosti 2 önnur tungumál og flestir læra meira að segja þriðja!
Þessi nýjasta spurði mig skrítnustu spurningar sem ég hef fengið um ísland (fyrir utan pennavininn minn frá Alaska: "Búið þið í snjóhúsum?" VIÐ TÖLUÐUM SAMAN 'I GEGNUM NETIÐ!!!). Þessi fóstra spurði mig hvort það væru dagheimili á Íslandi... Hversu miklir fornaldarmenn halda þeir að við séum?

29.7.04

Ammli...

Við Anna skrópuðum í leikskólanum í gær til að geta farið með Hrefnu, Unu og Baldri í IKEA:)
Dagurinn flaug og við vorum öll alveg þvílíkt dösuð eftir allt.

Anna Sólrún er með fjórar tennur eins og ég hef áður sagt, það fyndna er að í efri gómi eru það ekki framtennurnar heldur augntennurnar. Þannig að þegar Anna hlær þá sést í "víg"tennurnar hennar;) Ég er farin að kalla hana litlu vampíruna. Við tókum myndir af þessu sem ættu að koma á heimasíðuna hjá Finni og Hrefnu bráðlega... Eftir mánuð líklega;)

Finnur á afmæli í dag, hann er orðinn 30ára!!! Þannig að þetta er stórafmæli:) Hann ætlar að halda upp á það á laugardaginn, afmælisdaginn hennar Ragnheiðar frænku. Þá verður útiveisla. Fínt við útiveislur hér er að það þarf aldrei að hafa áhyggjur af veðrinu. Bara að það sé örugglega skuggi yfir grasinu;)

28.7.04

Kannski við séum merkileg þjóð þrátt fyrir allt;)

Anna Sólrún fór í sína fyrstu heimsokn í leikskólann í dag, eða allavega alvöru heimsóknina þar sem hún fær að leika við krakkana. Henni fannst þetta alveg æði, sérstaklega að fara í göngutúr í 6krakka vagninum. Frekar fyndið fyrirbæri;) Ég var þvílíkt þreytt eftir þessa heimsókn andstætt Önnu sem hefur rétt tekið sér stutta lúra í dag, sem er slæmt fyrir mína fegrunarblundi;) Ástæðan fyrir svefnleysinu er líklega sú að hún er að taka tennur eins og brjálæðingur; 4tennur á tveimur vikum! Ekki eitthvað sem ég væri til í að standa í núna...

Annars gerði ég stórkostlega uppgötvun í kvöld. (Var að vísu búin að heyra um hana en var ekki búin að líta það eigin augum;)) Hér í USA er ákveðin dekkjaauglýsing sem gæti mögulega verið tekin á Íslandi en mikið fiffuð í tölvu. Það sem er líka skrítið við þessa auglýsingu er að bílstjórinn er sýndur í tveimur skotum og ótrúlegt en satt virðist hann vera Íslendingur og ekkert minni maður en Hilmir Snær Guðnason.
(Lesendur athugið að þetta eru ekki öruggar heimildir.)
Ég á þetta allt fest á spólu með Quantum Leap þáttum;)

27.7.04

Hvernig hljómar íslenska?

Það er ótrúlegt hvað ég er spurð hérna þegar ég tala við aðra á íslensku: "What language is that you're speaking? French?"  Svo þegar ég/við segjumst vera að tala íslensku: "Ohhh, wow! Iceland is green and Greenland is white?Is'nt it?"
Greinilegt að kanarnir hafa lært landafræðina sína einstaklega vel.
Mig langar samt að vita hvernig íslenskan hljómar fyrir utanað komandi. Ég hélt einhvern vegin að hún hljómaði meira eins og þýska eða eitthvað...

25.7.04

Girls night out

Önnur stelpu-/djammhelgi. Hrafnhildur sótti mig á föstudeginum og við fórum samfó upp í Fremont til Unu þar sem við héldum létt stelpu-sleepover með margarítum og svona.
Við erum samt alveg ótrúlegar! Við fórum að versla daginn eftir, alveg slatta. Þetta var auðvitað allt nauðsynlegir hlutir sem við urðum að eignast. Samt keypti ég ekki sundbol og skó sem var eiginlega það sem ég ætlaði helst að kaupa;)
Við gistum allar heima hjá mér næsta kvöld til að djamma á campus. Við skemmtum okkur alveg geggjaðslega vel. Ég hét sko Una Eydís og var fædd 1975 (21árs aldurstakmark!). Þeir vildu eiginlega ekki hleypa mér inn á debetkortinu heldur vildur fá að sjá the real thing, passann minn. Ég náttúrulega orðin brjálæðislega æfð í að ljúga mig útúr svona (:p) og mér tókst í heilli setningu að koma orðunum Ísland og íslendingur 30 sinnum fyrir. Þeir hleyptu mér svo inn því ég gat borið nafnið fram;) Nokkuð gott!

Við hættum við garlic festivalið á sunnudeginum því við nenntum ekki að keyra í klukkutíma rétt til að kíkja. (Haaaa? Þunnar?!?! ) Við eyddum samt deginum saman í göngutúr um University ave. (Laugarvegur Stanfords). Allt voða fínt.
Ég þakka bara Unu og Hrafnhildi fyrir góða helgi, við hittumst vonandi bráðlega aftur:)

Við Anna erum svo bara einar og yfirgefnar núna því Finnur og Hrefna skruppu með Augusto í bíó og út að borða.  *sniff*sniff* Alltaf jafn illa farið með okkur *sniff*sniff* ;)

23.7.04

Ohhh, ég er svo vond frænka;(

Í dag fórum við Hrefna með Önnu í 6mánaðarskoðun (jebb, þó að hún sé 7mánaða;)). Eftir að Hrefna var búin að kenna hjúkkunni á vigtina (í alvöru!) og læknirinn búinn að hrósa Önnu hægri vinstri (hann var rosalega hrifinn af vinkinu hennar!! ;)) þá var komið að sprautunum. Ég hugsa að ég hafi verið stressaðri en Hrefna. Mér fannst þetta alveg agalegt! Að pína barnið svona:( Anna var sem betur fer fljót að gleyma að farin að brosa til okkar vonda fólksins.  Versti parturinn var um kvöldið þegar hún fór að vera aum í lærunum (enda tvær sprautur í hvort læri). Þá máttum við sko ekki snerta hana. Ohhhh, aumingja krúsí, eða eins og Eyrún myndi segja: "Ohhhhh, litla keppakríli!!!" ;)

Annars er að koma helgi, þá er alltaf fjör:) Ég hugsa að ég fari og hitti óperurnar Unu og Hrafnhildi. Hrafnhildur ætlar að taka sér frí um helgina og hitta okkur. Svaka fjör!!

22.7.04

Börn-börn-börn

Gærdagurinn var bara nokkuð fljótur að líða.
Ragga og Flóki komu á Stanford því Lára (mamma Flóka) var að kíkja á einhverjar rannsóknir hér.
Við Anna fórum á Stanford Shopping Center að hitta þau og svo gengum við heim til mín og fengum okkur að borða á Quiznos og kaffi á Starbucks.
Á Quiznos var okkur Röggu sagt að við værum rosalega heppnar að eiga svona falleg börn:) Hehe, maður er alveg hættur að nenna að leiðrétta fólk þannig að við sögðum bara takk.

Lára, Ragga og Flóki skutluðu mér svo upp í Fremont til Guðrúnar og Snorra þar sem ég passaði hann Baldur í gær. Þau Una voru að fara á tónleika með Train. 
Baldur var bara ljúfur og góður þó honum þætti skrítið að hafa þessa manneskju eina að passa sig! (Baldur: "Hmmm, hún fylgir venjulega með henni ÖnnuSólrúnu! Hmmmm, skrítið!")
Ég gisti þar líka um nóttina og fékk svo far heim þegar þau fóru í vinnuna í morgun.
Kötturinn þeirra reyndi að láta mig fá hjartaáfall nokkrum sinnum um kvöldið/nóttina. Ég lá þá uppi í rúmi þegar eitthvað stórt og loðið stekkur upp í rúm til mín. Það þarf ekki mikið til að giska á að ég kipptist upp í öll skiptin. Kisa hætti þessu samt áður en að ég sofnaði. (Kisa:  "Maður verður að fara vel að þessu mannfólki; það er svo viðkvæmt!")  

Anna var að læra nýtt trix í dag. Hún er farin að vinka manni.
Hún tók upp á því allt í einu við matarborðið að brosa til mín og vinka mér. Ótrúlega dugleg!!!

19.7.04

Meira sund

Eftir daginn í SanFran áttum við allar að taka sitthvora lestina til baka. Una var því miður svo óheppin að hún átti erfitt með að komast heim til sín því seinasta lestin sem fór beint til Fremont var löngu farin. Ákveðið var að Una færi bara með mér heim og gisti, sem gat ekki hentað mér betur. Málið var nefninlega að við þurftum að bíða í klukkutíma á lestarstöðinni og svo tók ferðin í lestinni annan klukkutíma. Frekar sorglegt því lestin mín fer á klukkutíma fresti á laugardögum nema 9 lestinni er sleppt og við komum ákúrat klukkan 9... Ekki gott. Ég var þannig mjög fegin að þurfa ekki að bíða ein í klukkutíma á lestarstöðinni.
Ragga var hinsvega mun óheppnari. Hún fór í vitlausa lest og endaði í Pleasanton sem er lengra frá SanFran heldur en frá SanFran heim til hennar. Hennar ferð tók ca. 2tíma þar sem hún fór til Pleasanton, tók aðra lest næstum alla leið til baka og aðra heim í Walnut creek. Hún hefði átt að vera ca. hálftíma á leiðinni.
Í raun endaði þetta þannig að við vorum allar þrjár á endastöðinni okkar á sama tíma.
 
Það að Una gisti hjá okkur var bara ennþá betri afsökun fyrir okkur Finn, Hrefnu og Önnu að koma í sundlaugina til þeirra Guðrúnar og Snorra. Þar sá ég Önnu í fyrsta sinn vera hrædda við vatnið, því um leið og við fórum ofan í fór hún að hágráta. Hún grét alveg lengi á eftir og það var mjög erfitt að róa hana. Líklega var þetta mest sjokk að fara svona úr hitanum í kalt vatn (virkaði kalt fyrst þegar maður kom úr steikjandi sólinni). Hún samt var rosalega óörugg mestan hluta meðan hún var ofaní. Allavega mun óöruggari en hún hafði verið í seinustu skiptin.
Við Finnur borðuðum þarna kvöldmat og spiluðum en Hrefna og AnnaSólrún stungu okkur af í stelpukvöld. Guðrún og Una voru svo svakalega góðar við okkur að þær skutluðu okkur heim eftir spil.
 
Af Önnu er það helst að frétta að hún fékk fyrstu tönnina núna á laugardeginum. Ég hef reyndar ekki séð hana ennþá því hún stingur alltaf tungunni út úr sér þegar ég er að reyna að kíkja. (Við skulum vona að hún sé ekki að ulla á mig;))


 


No lies, it's for beer.

Helgin er bara búin að vera svo svakalega skemmtileg og svo mikið að gerast að ég hef hreinlega ekki komist til að skrifa... Ég veit varla hvernig ég á að byrja án þess að hafa þetta of langt:)
 
Sumir segja víst að mar eigi að byrja á byrjuninni... ;)
Helgin byrjaði á föstudagskvöldið þegar við Hrefna fórum með öðrum íslenskum konum til SanFran í saumó hjá henni Lottu. Saumaklúbburinn var alveg einstaklega vel heppnaður og skemmtilegur.
Þar sem að við Una og Ragga höfðum ákveðið að kíkja á borgina á laugardeginum fannst okkur sniðugast að gista þar um nóttina. Við vorum nú einu sinni allar komnar þangað og það tók því nú varla að fara heim og reyna svo að finna hver aðra daginn eftir.
Við höfðum því pantað okkur herbergi á tveggja stjörnu hóteli kvöldið áður og héldum þangað eftir saumóinn. Hótelið kom okkur bara skemmtilega á óvart, því það var eiginlega mun betra heldur en við áttum von á, án þess að vera svaka fannsí.
 
Þrátt fyrir gott herbergi og svona, héldumst við ekki lengur í herberginu en til ca. 2.
Við höfðum ekki verið upplýstari en svo að allir skemmtistaðir og barir loka einmitt kl.2! ...en það var allt í lagi, við hittum þarna eitthvað af fólki, þar á meðal norðmenn og svía sem við héngum með áður en við fórum heim á hótel að sofa.
 
Þrátt fyrir háleit markmið um að komast í morgunmatinn á hótelinu morguninn eftir þá fór það ekki svo. Við svefnpurkurnar sváfum til 10 (aðallega við Una því Ragga var andvaka frá því klukkan 6!!).
Frá SanFran ferðinni er erfitt að segja meira án þess að skrifa heila ritgerð! Hún var algjör stelpu-, dekurferð!!
 
Við fengum okkur að borða á stað sem heitir Pita pit (ótrúlega góður!! Er á Chestnut street ef einhver ætlar að borða í SanFran á næstunni;)). Við römbuðum reyndar ekki alveg á hann því þangað höfðum við farið með skandinövunum um nóttina og við ekki borðað en þeir látið mjög vel af. Við hittum á eigandann bæðu um nóttina og um morguninn. Hann að sjálfsögðu þekkti okkur, ég heyrði hann segja við afgreiðslustelpu "Some people even come 2 a day!" þegar við gengum inn... Hmmm;)
 
Við tókum daginn í borginni frekar random þrátt fyrir að hafa smá hugmynd um hvert við vildum fara og hvað við vildum sjá. Við römbuðum inn á fóta- og handsnyrtistofu eftir morgunmatinn og fengum hand- og fótsnyrtingu. (Ég fékk mér neglur, svaka pæja:))
Það sem við kíktum fleira á var Chestnut street (verslunargata) án þess að versla mikið, gengum eftir ströndinni þar sem við t.d. sáum yfir að Alcatraz fangelsinu og skýjaðri GoldenGate brúnni.  Við ströndina var svo fullt af mörkuðum þar sem við létum aðeins ginnast yfir glingri og teiknuðum skopmyndum. Við kíktum einnig á vaxmyndasafn (stóðst ekki alveg væntingar en samt gaman) og fórum í kínahverfið. Í kínahverfinu enduðum við daginn á hálftíma nuddi sem var æðislegt! Við fórum allar út með vellíðunar glottið á andlitinu. Við hreinlega hefðum ekki getað endað daginn betur. 
 
Í SanFran eins og öðrum stórborum er allt fullt af betlandi fólki. En þar sannast kenning Darwins um survival of the fittest.
Heimilisleysingjarnir eru farnir að bregða á það ráð að vera sem frumlegastir í peningabeiðninni og það virðist takast hjá þeim.
Við sáum tvo nokkuð góða, annar sat bara eins og margir aðrir með handskrifað spjald fyrir framan sig. Hjá honum hins vegar stóð: "No lies, it's for beer." Þetta svínvirkaði hjá karlinum sem fékk fullt af fólki til að gefa sér peninga.
Næsti á eftir, svona 3metrum frá var annar og á hans spjaldi stóð: "world famious bush man, give tips." Við vorum svo hissa á þessu að við stoppuðum aðeins til að sjá manninn. Hann sat á stól með tvær vel laufgaðar greinar fyrir framan sig. Þegar fólk svo gekk framhjá honum án þess að sjá hann rétti hann greinina og sagði "Búhh!!" til að bregða fólki. Þegar við höfðum stoppað tókum við allt í einu eftir að um hann hafi myndast stór áhorfendaskari sem bjó þó til göngustíg svo fólk kæmist framhjá. Svo var hlegið og hlegið í hvert sinn sem fólk öskraði upp yfir sig af hræðslu.
 

16.7.04

Verð... að... horfa...

Ég er húkkt á bæði Quantum Leap og kúkkídó ís. Þetta er eiginlega sorglegt!! Annað fitar mig og hitt gerir mig lata. Saman er þetta einstaklega sterkt stöff! :)
Guðrún, Snorri, Una og Baldur komu í kvöld færandi hendi, fullt af pizzum og jarðarberjum, mmmmmhhh.  (Fitandi hvað?!?!)
 
Fyrr um daginn kom hann Daníel Andri aftur í heimsókn til okkar, ég er ekki frá því að Anna hafi verið hálf abbó þegar ég hélt á honum:) Svona er maður merkilegur;) Hún var samt endalaust ánægð að hafa hann. Daníel Andri leit öðru hvoru á hana og brosti en Anna Sólrún skríkti og skríkti:)
 
Á morgun er svo saumó hjá Lottu í SanFrancisco (lesist með ammerískum hreim: Seeeen freeen'siskó). Við Una og Ragga (Rannveig) ætlum að gista niður í borg á hóteli til að byrja borgarleiðangur okkar snemma á laugardeginum... og hver veit nema mar eyði penge;) Hmmmm

15.7.04

Leikfélagi! Vííí!!!

AnnaSólrún fékk leikfélaga í dag. Hann Daníel Andri þeirra Berglindar og Styrmis ætlar að vera með okkur Önnu öðru hvoru. Hann var hjá okkur í dag í klukkutíma og ég held hreinlega að Anna hafi ekki misst brosið af andlitinu meðan hann var hér. Daníel Andri var alveg eins og ljós allan tímann þrátt fyrir að hafa þessa ókunnugu kerlingu (mig) að passa sig.
Það er gaman að hafa hann hérna líka, hann er rosalega þægur og Önnu finnst ekkert smá gaman að hafa annað barn að leika við, ekki alltaf sömu kerlingarnar á daginn, mamman og eldgamla aunt-in hennar, úff! (Þær eru sko á þrítugsaldrinum!!) Svo fæ ég líka auka pening... Ekki slæmt:)

Dagurinn gekk meira að segja svo vel upp að við Hrefna gátum báðar farið í sund. Fyrst ég og svo hún. Bæði til að einhver væri að passa Önnu og svo af því að við Hrefna notum báðar sama kortið (*hóst*hóst*).

Sarah og Augusto komu svo í mat, spil og The Daily Show sem í kvöld var reynar alveg ótrúlega góður þáttur! Alveg óendanlega fyndinn.

Fjölgun

Ég var að frétta að hún Máney, fyrrverandi bekkjarsystir mín (4. og 5. bekkur) var að eignast stelpu á sunnudaginn. Hún er meira að segja búin að nefna hana. Stelpan heitir Steinunn Vala. Ég gæti ekki verið meira montin. Þó ég verði að viðurkenna að ég á að sjálfsögðu ekkert í nafninu:)
Ég er að vísu búin að óska henni til hamingju en ég geri það bara aftur hér:)

14.7.04

$$$$$

Eftir að Hrefna kom frá tannsa í dag skruppum við stelpurnar í bæinn enda vorum við með bílinn. Fyrsta var að sækja video-ið í viðgerð. Sem betur fer fyrir mig því ekki get ég verið að senda spólur út og suður í fóstur til að taka upp Quantum Leap;) Að maður tali ekki um þættina sem ég var búin að láta taka upp fyrir mig á átti eftir að sjá... Úff! Hvernig hefði eiginlega farið fyrir mér?!?!

Eftir video-leiðangurinn okkar skruppum við í Great mall. Hvernig eiga tvær stelpur að lifa af lífið í Bandaríkjunum án þess að vera búnar að versla í meira en mánuð?!?! Ég segi nú bara eftir þessa ferð að ég er fegin að ég byrjaði ekki fyrr! Núna langar mig bara að versla áfram! Ég meina, halló, hverjum er ekki sama um þessa dollara? Það á bara að eyða þeim;)
Ég bíð bara eftir sjokkinu sem ég fæ á morgun þegar samviskubitið kemur yfir mig. Ég hefði ekki átt að eyða svona miklu í Guess! Það er allt of dýr búð.... Svona miðað við hitt allavega (kannski ekki Ísland).

Btw Hanna, ég er búin að finna chilli's, nú á ég bara eftir að fara þangað;)

12.7.04

Smáþjóð

Mér hefur alltaf þótt gaman að segja við útlendinga þar sem ég kem, að ég sé íslensk. Ég er svakalega stolt af því og finnst ég vera ekkert smá merkileg. Það er að sjálfsögðu af því að Ísland og þjóð eru svo svakalega merkileg!
Ég hef heyrt fólk tala mikið um einmitt þetta. Það að við, þessi pínulitla smáþjóð lengst út í Atlantshafi skulum finnast við vera svona svakalega merkileg. Það sé alveg furðulegt.
Fyrst núna þegar ég er búin að segja þrjúþúsund sinnum að ég sé frá eyjunni Íslandi og þar búi rétt undir 300.000 manns er ég allt í einu að fatta hvað við erum í rauninni pínu oggu ponnsu lítil! Við náum ekki einu sinni upp í eina prósentu af mannsfjölda heimsins.
Það er hlægilegasta er að ég þurfti að fara út fyrir heimsálfuna til að fatta þetta;)

Ammli

Við vöknuðum eldsnemma í morgun, fyrir 10! til að fara í afmæli hjá honum Flóka Fannari sem varð 1 árs í dag. Hitinn var aðeins meiri þar enda klukkutíma akstur frá okkur og þar af leiðandi klukkutíma akstri lengra frá ströndinni sem þýðir meiri hiti. Góð skýring hjá mér:) Við fundum okkur bara skugga, fengum rosalega góðan mat og höfðum það gott.
Við vorum þarna 3 af 4 íslenskum "óperum" á svæðinu sem ég veit um, ég, Una og Rannveig en hún er hjá Láru og Halldóri sem eru einmitt foreldrar Flóka afmælisbarns. Við óperurnar töluðum um að skreppa upp í SanFran að skoða okkur um kannski næstu helgi og fá Hrafnhildi, 4.óperuna með.
Eftir afmælið fórum við í heimsókn til Ágústar, Soffíu og fjölskyldu en þau bjuggu einmitt þarna rétt hjá. Eins gott að gera eins mikið úr ferðinni okkar fyrst við vorum komin svona langt. Þau búa í alveg rosalega stóru og flottu húsi, einmitt svona eins og í bíómyndunum;) (bara svona af því að öll mín þekking af Bandaríkjunum byggist á bíómyndunum.:)) Finnur og Hrefna voru búin að tala um að fara með mig þangað til að sýna mér brjálæðislega húsið þeirra og það stóðst alveg væntingar;).

Það er annars alveg ótrúlegt! Ferðin mín hér er bara hálfnuð! Skrítið hvað manni finnst maður alltaf vera nýkominn. En ég meina, how time flies when you're having fun! ;)

11.7.04

Rússí-Kyrrahaf

Við Finnur skruppum á stöndina í dag, ekki til að liggja mikið í sólbaði heldur bara svona að kíkja... á rússíbanana;) Við vorum rosalega óþekk og stálumst til að taka videomyndir á ferð. Ég er að vísu ekki búin að skoða en ég heyrði mig öskra út í eitt meðan Finnur var að skoða áðan:)
Tækin voru alveg við ströndina, næstum á henni. Við stóðumst það þess vegna ekki að dippa tánni útí Kyrrahafið... víííí:)
Eftir að hafa nært okkur aðeins héldum við heim. Við lentum að vísu í smá umferðarteppu og vorum lengur á leiðinni en við ætluðum en það var allt í lagi:) Við höfðum fullt af tónlist með og svona.
Núna erum við að bíða eftir henni Söruh sem ætlar að horfa á Iceage með okkur, hún er bara hálf manneskja þessa daganna án Augusto síns og veit ekkert hvað hún á af sér að gera.

10.7.04

Mushrooms...

Dagurinn í dag var bara nokkuð viðburðaríkur. Meðan Hrefna var á fundi og Anna svaf beið ég eftir að barnalæknirinn myndi hringja. Anna var nefninlega komin með hvíta díla á tunguna sem við (læknaleysingjarnir) greindum sem sveppasýkingu. Meðan ég beið eftir að síminn hringdi fór ég að spá í hvað sveppasýking væri á ensku... hmmm... bíðum nú við... hvað eru sveppir? hmmm... mushrooms... Læknirinn hringdi ekki áður en Hrefna kom heim þannig að ég fékk ekki að nota mushroom kenninguna mína, en þrátt fyrir það tókst mér að skemmta sjálfri mér með því að ímynda mér samtal við lækninn þar sem ég segði: "Yes, she has these white spots on her tongue... Could be mushrooms"
Híhíhíhí... Ég veit... simple mind;)
Við skruppum saman... hehe. Við skruppum stelpurnar niður í vinnu til Finns, bæði til að stela af honum bílnum (til að versla) og sýna Önnu. Vinnufélagar Finns voru búnir að kvarta yfir Önnu-leysinu. Málið er nefninlega að núna eftir að við fluttum á campus getur Hrefna gengið í skólann og þarf ekki bílinn jafn mikið, þar af leiðir (minnir mig á stæ.tíma í MR)hefur Anna ekkert heimsókt vinnuna hans Finns í mánuð.

Eftir vinnuheimsóknina fórum við beint á sjúkrahúsið. Læknirinn vildi fá að kíkja á blettina hennar Önnu áður en hún fengi sveppalyf. Ég, simple minded íslendingurinn, skemmti mér mikið yfir því þegar við vorum beðnar um eftirnöfnin okkar, fyrst til að fá visitor passa og svo þegar læknirinn kom inn. Honum fannst ekkert smá töff að þetta væri íslenska.
Þetta er svolítið skemmtilegt ferli svona á háskóla spítala (Stanford spítali) en líka frekar hægvirkt. Málið er að fyrst fáum við inn til okkar læknanema sem tékkar á öllu og svo fer læknaneminn og ráðfærir sig við lækni sem kemur inn og tékkar á öllu svona til að vera viss.
Við vörðum deginum að mestu leyti á sjúkrahúsinu í stað þess að versla; hálftíma að bíða eftir læknanemanum og svo hálftíma eftir lækninum. Ætli neminn og læknirinn hefi ekki notað þennan hálftíma til að reyna að finna út hvernig ætti að bera þetta skrítna eftirnafn fram; Finnsdóttir. Það fyrsta sem læknirinn sagði þegar hann kom inn var: "Hvernig í ósköpunum berið þið þetta nafn fram? Er þetta íslenska????"
Við útskýrðum fyrir honum að við værum Finnsdottir, Gunnarsdottir og Thorarinsdottir og svo hvernig þetta kerfi virkaði.
Ég meina, halló! Hvað er svona erfitt við Thorarinsdottir... ;) :p
Það þarf lítið til að gleðja simple minds eins og mig:)

By the way, ég mæli eindregið með japönskum mat. Hann er æði... Algjört möst að reyna að borða með prjónum;)

9.7.04

Settles og ís;)

Í kvöld fórum við til Guðrúnar og Snorra í mat... Í þetta sinn komum við með take away mat með okkur og eplapæ í eftir rétt. Allt smakkaðist mjög vel, eplapæið tvíbakaða líka:)
Okkur tókst sem sagt að brenna efri hlutann en Hrefna reddaði því með því að setja nýtt ofaná lag... Svo fengum við að sjálfsögðu ís með:)
Ótrúlegt en satt þá spiluðum við líka og í þetta sinn Settles, bæir og riddarar. Ég hafði aldrei spilað þá útgáfu áður en hún er bara rosalega góð. Mjög skemmtileg og góð framlenging á gamla Settles-inu þegar maður vill breyta til.
Guðrún og Snorri fóru um hálf 11 til að sækja Soffíu, Ágúst og fjölskyldu sem voru að koma úr 3ja vikna Íslandsferð.
Við héldum svo heim eftir hálftíma spilastopp því við urðum að sjálfsögðu að spila Sequence líka.
Anna Sólrún sem hafði neitað að sofa nema augnablik var glaðvakandi í bílnum og skemmti frænku sinni með því að humma með lögunum í útvarpinu... Mjög fyndið:)

8.7.04

Ísát og fleira

Helstu fréttir héðan að handan eru þær að við metumst um hver okkar brýtur glös á sem skemmtilegasta hátt. Í augnablikinu á ég vinninginn; bæði er ég búin að brjóta flest glös og þar að auki slasa mig svo skemmtilega. Verðlaun mín hafa verið ís og meiri ís. Ég hreinlega man ekki eftir að hafa borðað eins mikinn ís á ævinni! Vð erum "húkkt" á cookie dough safeway ísnum, og ég er ekki að grínast. Ég man ekki eftir að hafa borðað ís svona marga daga í röð!

Af ekki svo góðum fréttum... fyrir mig. Vídeó tækið bilaði í seinustu viku og við fáum það ekki aftur fyrr en í næstu viku, sem væri allt í fína ef þeir hefðu ekki ákveðið að strumpa Quantum Leap þáttunum af á sem skemmstum tíma og sýna 8þætti í röð á föstudaginn... Allt þættir sem ég á ekki og hef aldrei séð en hefði annars tekið upp... Ég gæti gerst meiri sjónvarpssjúklingur en ég nú þegar er og vaknað klukkan 8 á föstudagsmorgninum og horft á sjónvarpið í 8tíma... Hmmm, ætli við reynum ekki frekar að fá einhvern til að taka þetta upp fyrir mig:)

6.7.04

Myndir!!

Kvartandi fjölskyldumeðlimir mínir ættu nú að geta glaðst. Fyrstu myndir eftir að ég kom út eru komnar á síðuna hjá Finni og Hrefnu... Aðeins mánuði seinna;)

5.7.04

Afmæli

Í dag á Vilborg afmæli, hún hefur loksins stigið yfir 20ára þröskuldinn:)
Allavega, til hamingju með afmælið Vilborg!! :)

Tölvan mín!!

Fyrsta bloggið á tölvuna míííína!! Jaaaa, allavega tölvuna sem er í herberginu mínu. Núna erum við með eina tölvu á mann, tvær fastar og eina laptop. AnnaSólrún hefur að vísu enga tölvu en hún getur horft á sjónvarpið á meðan;)

Annars er ég búin að sofa mest allan daginn. Held ég hafi fengið sólsting í gær, er búin að vera með hausverk og vera flögurt í allan dag... Ekki gott. Þetta er annars að lagast.

Anna Sólrún fékk barnastól til að borða í. Einmitt það sem vantaði. Við létum hana vera í taubarnastól en það var eiginlega ekki nógu gott. Það varð að þvo stólinn í þvottavél reglulega enda stóllinn ekki beint gerður til mötunar:) Vorum búin að reyna róluna hennar líka, ekki alveg nógu sniðugt en mátti reyna:)

4.7.04

Sólarsteik

Innihald:
Skemmtigarður.
Einn hópur fólks, stærð eftir þörfum.
Sólarvörn, ekki nauðsynleg fyrir steikina.

Aðferð:
Hópnum er komið fyrir í skemmtigarðinum. Sólarvörnin borin á eftir þörfum, því minna, því meira steikt.
Bakist í 8tíma.

Jebb, ég fór með Snorra, Unu og Sif í garðinn Great America. Þetta var "geeeeðkt" gaman. Við vorum þar í 8tíma og bárum að sjálfsögðu á okkur sólarvörnina öðru hverju. Þegar á leið daginn og fólkinu fór að fjölga... og fjölga... og fjölga vorum við gamla fólkið orðið óendanlega þreytt en Sif var þvílíkur stuðbolti ennþá og vildi helst vera áfram til lokunar.
Við fórum á endanum heim enda öll með hrista maga og hausa, og raðirnar búnar að lengjast þrefalt. Þetta var reyndar óvenju bissí dagur held ég vegna flugeldasýningarinnar um kvöldið í tilefni þjóðhátíðarinnar 4.júlí.
Heima, eldaði Finnur handa okkur dýrindis lax. Við systkinin stóðum okkur vel í því að kenna fólkinu að borða koktelsósu með laxinum. Það lagðist bara nokkuð vel í fólk.
Guðrún var þvílíkt heimilisleg og kom með heimagerða ferskjuköku, ferskjur úr garðinum. Það var alveg til að setja punktinn yfir i-ið.

Þegar við höfðum komið heim úr garðinum hafði ég uppgötvað rauðaflekki á öxlum og niður á bringu, aðeins aftan á baki. Ég hafði víst ekki verið alveg nógu dugleg að passa að endurnýjunar sólarvörnin færi alls staðar. Ég man þetta næst. Mér líður ágætlega núna, smá sviði við áxlirnar, annars allt að fara.
Ég ætti að fá annað tækifæri til að passa mig því það var einhver umræða um að fara aftur og í þetta sinn allir.

3.7.04

Svikahrappur

Ég lét loksins til leiðast og reyndi að svindla mér í Stanford laugina. Það gekk bara vel, ekkert mál að komast inn. Ég er alls ekki í neinu formi en ég hef allavega nokkra daga í viðbót í sundinu. Mig minnir að það sé 14.júlí sem sundlaugin verði að mestu notuð undir æfingar fyrir ólympíuleikana. Þá mun fækka tækifærunum fyrir óþjálfandi einstaklingana að synda... Eins gott að ofnýta þetta þangað til;)

2.7.04

Kaffi!!!

Þar sem Finnur og Hrefna drekka ekki kaffi og vilja ekki sjá kaffivél í sínu húsi;) erum við Anna Sólrún búnar að uppgötva Starbucks.... Ummmmmm, koffín!!!! Fín afsökun fyrir að hreyfa sig úr sófanum;)

Grillveisla;)

Jebb, við vorum í grillveislu í gær:) Við fórum í mat til Guðrúnar og Snorra. Eitt af þessum matarboðum þar sem við sjáum um mat og þau um húsnæði... og aðeins meira rauðvín heldur en við komum með;) Þið sem hafið heyrt um Köben ferðina vitið hvað ég meina, þið sem voruð þar... vitið hvernig mér líður í dag:)
Við spiluðum öll langt fram eftir kvöldi, Guðrún, Snorri, Una, Sif og við(F+H+S).
Þetta var endalaust fjör, bæði Fimbulfamb og Sequence. Ótrúlegt en satt þá var þrítefli, tvisvar (3lið;)). Ég veit ekki hvort þetta á að vera hægt, ég meina hver eru líkurnar á því? (",) ;)
Annars eru Snorri, Una og Sif að hugsa um að taka mig með í Great America á laugardaginn. Það held ég að verði fjör:)

Af Önnu Sólrúnu er allt gott að frétta fyrir utan að hún er búin að vera eitthvað veik í maganum. Læknirinn greindi hana í gegnum síma, og sagði að hún væri líklegast með vírus í maganum. Það er eitthvað búið að vera að ganga. Hún virðist þó öll vera að lagast, svona smátt og smátt, sefur betur og svona:) Það er víst mest lítið sem hægt er að gera við svona vírusum, bara bíða og passa að hún drekki nóg. :)